Hvað er
ÞURR JANÚAR?
Þurr janúar er stuðningur við þá sem vilja taka áfengisneyslu sína til skoðunar og/eða ná betri stjórn á drykkju sinni. Það getur verið ráðlegt fyrir alla að skoða neysluvenjur sínar og viðhorf til áfengis af og til. Margir eiga erfitt með að hafa þá stjórn á áfengisneyslu sinni sem þeir vilja.
Þrátt fyrir góðan ásetning verða drykkirnir aðeins fleiri en æskilegt er og einhverjir kunna að sjá eftir ýmsu sem þeir segja og gera ölvaðir. Það á við um alla sem nota áfengi yfir höfuð að hafa í huga að áfengi er engin venjuleg vara, ef litið er til áhrifa þess á heilsu og samfélag.
Það er auðvelt að festast í viðjar vana og hugsunarleysis hægt og rólega án þess að taka eftir því. Svolítið eins og froskur sem settur er í fötu með köldu vatni. Þar liggur hann kyrr og þótt heitu vatni sé bætt út í svo vatnið hitni smám saman hreyfir hann sig ekki og deyr að lokum án þess að aðhafast neitt. Hann hefur ekki gert sér grein fyrir breytingunni. Sé hann er aftur á móti settur ofan í sjóðandi vatn stekkur hann snarlega upp úr fötunni og bjargar lífi sínu. Hann skilur samstundis þörfina á að bregðast við.
Þurr janúar er einmitt leið og tækifæri til þess að velta fyrir sér ýmsum hliðum áfengisneyslu og auðvelda fólki stjórn og ábyrgð í neyslu sinni, hvort sem það felst í að draga úr henni, breyta neysluvenjum, hætta neyslu tímabundið, láta alfarið af neyslu áfengis eða leita sér ráðgjafar vegna áfengisneyslu.
En skiptir einhverju máli að taka sér bara einn mánuð í frí frá áfengi? Svarið við því er já, svo langt sem það nær. Það er gott fyrir heilsuna að hætta áfengisneyslu eða draga úr henni jafnvel þótt það sé aðeins tímabundið. Svo er gott aðhafa í huga að allar breytingar hefjast á litlu skrefi. Hver vika, hvað þá mánuður, telur þegar fólk vill breyta um lífsstíl.
Áfengi er heilsuspillandi og í raun og veru telur hver dagur sem áfengisneyslu er sleppt. Þeir sem gefa líkamanum samfellt frí frá áfengi, jafnvel einungis í einn mánuð, lýsa ýmsum jákvæðum áhrifum af því. Meðal þess er að blóðsykur hefur lækkað, blóðþrýstingur hefur lækkað, svefninn hefur batnað, fólk hefur lést og orðið orkumeira. Svo kostar sopinn sitt. Margir hafa einnig þá reynslu að eftir tímabundið bindindi hafi þeim tekist að núllstilla áfengisneyslu sína og náð betri tökum á henni til lengri tíma og endurmeta viðhorf sitt til áfengis. Eigi til dæmis auðveldara með að afþakka áfengi eða hætta neyslu þegar þeim hefur þótt nóg komið. Eða sleppa því alveg að drekka við ákveðnar aðstæður. Í rannsókn sem gerð var við háskólann í Sussex kom í ljós að sjötíu prósent þeirra sem tóku þátt í þurrum janúar breyttu áfengisneyslu sinni til betri vegar með því að drekka minna og sjaldnar yfir árið í heild.
Við hvetjum þig til þess að nota tækifærið, taka þátt í þurrum janúar, og meta hvort áfengisneysla þín gefur tilefnið til þess að bregðast við. Ávinningurinn af því getur verið víðtækur og fjölbreyttur. Um það getur þú fræðst hér á vefsíðunni. Við hvetjum þig líka til þess að notfæra þér appið hér fyrir neðan til þess að auðvelda þér leiðina að markmiðssetningu, ákvarðanatöku og breytingum.
Við óskum þér góðs gengis.