Góð ráð í
ÞURRUM JANÚAR
Verkefnið Þurr janúar felur í sér að sleppa allri áfengisdrykkju í janúarmánuði. Tilgangurinn er að þátttakendur hvíli líkamann á áfengi, endurmeti áfengisneyslu og áfengisneysluvenjur sínar og eftir atvikum viðhorf sín til áfengis. Ávinningurinn af þessu er margvíslegur og ýmis dæmi eru nefnd á þessari vefsíðu.
Það kann að vera að sumum þyki erfitt að halda sig algerlega frá áfengi í heilan mánuð. Það er vísbending um að þá sé áfengið farið að stjórna lífi viðkomandi og ráði of miklu. Það ætti samt ekki að koma í veg fyrir að reyna að ná stjórninni. Það má byrja í styttri skrefum, til dæmis með því að taka fyrst eina viku þurra, eða tvær, í janúar og halda svo áfram fram á árið þangað til markmiðinu um heilan áfengislausan mánuð er náð. Þannig verður þetta yfirstíganlegra, ekki síst fyrir þá sem eiga erfitt með að sleppa áfenginu alveg.
TryDry appið (sem er frítt) er ágætt hjálpartæki til að fylgjast með hvernig gengur. Í gegnum það getur þú fengið hvetjandi pósta og tilkynningar sem halda þér við efnið. Í appinu eru margs konar upplýsingar um áfengi sem þú getur nýtt þér til að halda janúar þurrum.
Nokkrar ábendingar sem hafa reynst vel í að taka sér frí frá áfengi.
-
Fyrsta skrefið er að setja sér ákveðið markmið og halda sig við það. Mundu að þú ert að þessu fyrir sjálfa(n) þig.
-
Það er hvetjandi að fylgjast með og hafa augun opin fyrir hugsanlegum breytingum sem verða við það að sleppa áfengisneyslu. Þegar frá líður finnur þú væntanlega jákvæða breytingu á svefni, orku og andlegri líðan, líkamsþyngd og ýmsu fleiru. Það hefur reynst mörgum hjálplegt að halda einhvers konar dagbók til þess að dýpka skilning sinn á því sem gerist við það að hætta að drekka áfengi.
-
Það er mikilvægt að vera með hugann við það sem þú ert að gera. Til dæmis með því að láta símann minna þig á hverjum morgni á að þú ætlar að halda þig frá áfengi. Það er líka hægt að láta hann minna sig á seinni partinn eða á þeim tímum sem þú ert líkleg(ur) til þess að nota áfengi. Það getur verið ótrúlega auðvelt að ,,gleyma“ sér. Það grefur undan líkum á árangri.
-
Venjur eru sterkar. Það gæti verið ráðlegt að sleppa um tíma aðstæðum sem þú hefur tengt sterkt við áfengisneyslu. Gera kannski eitthvað annað og nýtt í staðinn.
-
Það gæti verið hjálplegt að fá aðra með sér í að sleppa áfengisneyslu í ákveðinn tíma, vini eða aðra fjölskyldumeðlimi. Það er alltaf gott að fá stuðning frá öðrum. Kannski hugmynd að stofna hóp á samfélagsmiðlum til þess að hvetja sig áfram, deila eigin reynslu og heyra hvernig öðrum gengur.
-
Það er líklegt að fólk í kringum þig hafi skoðun á því að þú hafir ákveðið að halda þig frá áfengi. Sumum þykir það áreiðanlega góð hugmynd og hvetja þig en öðrum kann að finnast erfitt að þú sért farinn að hegða þér öðruvísi. Þú munt hugsanlega upplifa athugasemdir og viðbrögð þeirra sem þrýsting eða jafnvel hvatningu til þess að drekka. Vertu undir það búin(n).
-
Komdu þér upp áfengislausum valkostum í staðinn fyrir áfengið. Það þarf ekki að vera flókið. Það má bragðbæta vatn með sítrónu, límónu eða appelsínu og það er líka gott að setja gúrkusneiðar eða myntu út í vatn. Svo má benda á að það er hægt að finna fjölmargar uppskriftir að óáfengum kokteilum á netinu. T.d. á vefsíðunni www.oafengt.is.
-
Sumum hefur reynst erfitt að vita af áfengi innan seilingar. Það gæti verið ráðlegt að losa sig við allt áfengi á heimilinu til að falla ekki í freistni.
Njóttu þess að vera laus við áfengi, þótt ekki sé nema í einn mánuð á nýja árinu.