ÞURR JANÚAR er samstarfsverkerkefni þriggja aðila.
Verkefnið er hugsað til að vera hvetjandi á jákvæðan hátt
og sem stuðningur við þá sem vilja taka áfengisneyslu sína til
skoðunar og/eða ná betri stjórn á drykkju sinni.

Fræðsla og forvarnir, félag áhugafólks um forvarnir og heilsueflingu var stofnað árið 1993 og rekur fræðslu- og upplýsingamiðstöðina FRÆ – Fræðslu og forvarnir.
FRÆ er ætlað að styrkja og efla fíknivarnir í landinu með fjölbreyttu upplýsinga- og fræðslustarfi með þekkingu í þágu forvarna að leiðarljósi. Miðstöðin aflar upplýsinga um fíkniefnamál og forvarnir, starfrækir gagnasafn og fræðsluvefsíður, veitir fræðslu og upplýsingar um ávana- og fíkniefnamál og veitir ráðgjöf í fíknivörnum.
Sjá nánar á vefsíðunni www.forvarnir.is

IOGT á Íslandi var stofnað árið 1884 og er hluti af fjölmennri alþjóðahreyfingu bindindisfólks. Meginviðfangsefni samtakanna er forvarnastarf, en auk þess skipa mannúðar-, friðar- og menningarmál og umhverfisvernd veigamikinn sess í stefnu samtakanna og starfi.
Markmið IOGT er að fólk um allan heim njóti frelsis og tilgangsríks lífs og beri virðingu hvert fyrir öðru án tillits til kynþátta, kyns, trúar- og stjórnmálaskoðana. Einnig að vinna að stjórnmálastefnu sem miðar að því að takmarka neyslu áfengis og annarra vímuefna og minnka skaðann sem fylgir henni.
Samtökin halda úti félagsstarfi fyrir börn og ungmenni og leggja áherslu á að bjóða upp á vímuefnalaust félagsumhverfi fyrir fólk á öllum aldri. Samtökin hafa allt frá stofnun lagt ríka áherslu á fræðslu í ávana- og vímuefnamálum, hvatningu til vímuefnalauss lífs og raunhæfum aðgerðum og félagslegri þjónustu til að tryggja mannsæmandi líf fyrir fórnarlömb áfengis og annarra vímuefna og fjölskyldur þeirra.
Sjá nánar á vefsíðunni www.iogt.is

Krabbameinsfélag höfuðborgarsvæðisins var stofnað árið 1949 og er eitt af aðildarfélögum Krabbameinsfélags Íslands. Meginmarkmið félagsins er:
- að fækka þeim sem veikjast af krabbameinum
- að lækka dánartíðni þeirra sem greinast með krabbamein
- að bæta lífsgæði þeirra sem greinast með krabbamein og aðstandenda þeirra
Félagið hefur sérstaklega beitt sér í forvörnum og fræðslu um áhrifaþætti krabbameina, svo sem nikótín- og tóbaksnotkun og neyslu áfengis og hvatt til heilbrigðra lífsvenja.
Sjá nánar á vefsíðunni www.krabb.is