Áfengi & umferðaröryggi

Áfengisneysla, jafnvel þótt lítil sé, skerðir hæfileika manna til aksturs. Viðbrögð verða hægari, skynjun brenglast og vímuáhrif draga úr dómgreind, þ.e. hæfninni til þess að draga ályktanir og hugsa rökrétt. Vegna þessara áhrifa vímunnar á dómgreind og hömlur hættir ökumönnum til þess að ofmeta hæfni sína til þess að stjórna ökutæki og gera lítið úr áhættunni sem því fylgir að aka undir áhrifum.

Áfengi hefur til dæmis þau áhrif að við eigum erfiðara með að meta fjarlægðir og hraða annarra ökutækja. Slævandi áhrifa áfengisins hafa þau áhrif að dómgreind okkar minnkar og við gerum okkur seinna grein fyrir hættum en ella. Vegna lakari samhæfingar skynfæra og heila verða viðbrögð hægari og ónákvæmari. Við þetta bætist svo að sjónsviðið þrengist og sjón í myrkri versnar.

Akstur undir áhrifum áfengis eða annarra vímuefna er ein af þremur algengustu orsökum banaslysa í umferðinni. Auk þess verða margir fyrir alvarlegu heilsutjóni, jafnvel ævarandi örorku, vegna ölvunaraksturs.

Það er mikilvægt að hafa í huga að ekki þarf mikið áfengi (eða magn vínanda í blóði) til þess að ökuhæfnin skerðist til muna. Hálfur bjór hefur til dæmis þessi áhrif:

  • Lengt viðbragð um 35%.
  • Líkur á mistökum aukast um 25%.
  • Sjón í myrkri minnkar um 30%.
  • Nákvæmni í akstri minnkar um 25%.

Við berum öll ábyrgð á okkur sjálfum sem ökumönnum og hegðun okkar í umferðinni. Höfum fyrir ófrávíkjanlega reglu að aka aldrei undir áhrifum áfengis eða annarra vímuefna.

  • Geymum bílinn heima, fáum far með einhverjum sem er allsgáður eða tökum leigubíl.
  • Setjumst aldrei í bíl með drukknum bílstjóra.
  • Tilkynnum ölvunarakstur til lögreglu.

Ef þú átt þátt í umferðarslysi og það mælist áfengi í blóðinu áttu það á hættu að tryggingarfélagið geri þig ábyrgan fyrir öllu tjóni sem af hegðun þinni hlýst – jafnvel þótt mælanlegt magn áfengis sé mjög lítið. Þetta getur gerst jafnvel þótt þú hafir ekki valdið slysinu.

Því miður taka margir ökumenn reglulega þá áhættu að halda út í umferð eftir áfengisneyslu, ómeðvitaðir um raunveruleg áhrif áfengis á aksturshæfni þeirra. Ekki bætir úr skák að samkvæmt íslenskum lögum er heimilt að vera með áfengi í blóði upp að 0,2 prómillum. Það opnar enn frekar á möguleikann á að fólk taki áhættu og telji sér trú um að það sé undir lágmarki og því sé allt í lagi.

Nánari upplýsingar um viðurlög við ölvunarakstri má sjá hér.

Hægt er að skoða ýmislegar gagnlega upplýsingar um áfengi og akstur hér.

Skoðaðu sektarreikni lögreglunnar hér.