Alls konar óáfengt
Samfélagið er gegnsýrt af alls kyns áróðri og hvatningu til þess að neyta áfengis. Áróðri sem dregur upp þá mynd af áfengi að það sé nauðsynlegur hluti af lífi okkar og athöfnum en horfir algerlega fram hjá þeim margvíslega skaða sem neysla þess veldur.
Sumir nota áfengi í vímuskyni, í þeim tilgangi að takast á við kvíða eða áföll í lífinu. Neyslan hefur þá þann tilgang að deyfa tilfinningar. Svo er það alltof stóri hópurinn sem myndar áfengisfíkn með þeim fjölþættu og margslungnu áhrifum og röskun sem það hefur á lífið.
Margir nota hins vegar áfengi eingöngu í táknrænum tilgangi og finnst það tilheyra og vera ómissandi við ákveðin tækifæri eða nota það vegna félagslegs eða tilfinningalegs öryggisleysis, til dæmis feimni. Nota þá áfengi sem einhvers konar grímu til þess að auðvelda samskipti við aðra.
Aukin áhersla á heilbrigði og hollar lífsvenjur hefur aukið áhuga á alls kyns óáfengum drykkjum á undanförnum árum. Nú er í boði í verslunum fjölbreytt úrval alls kyns óáfengra drykkja sem koma algerlega í stað þeirra áfengu ef skrefið frá áfenginu virðist vera of stórt til þess að leggja áfengið til hliðar. Það er um að gera að skoða úrvalið og prófa sig áfram í leit að drykk sem fellur í kramið.
Auðvelt er að finna frábæra óáfenga drykki á netinu en við bendum sérstaklega á vefsíðuna www.oafengt.is. Þar eru uppskriftir að ýmsum óáfengum drykkjum sem sóma sér vel í veislunni, matarboðinu eða bara þegar mann langar til þess að gera vel við sig í drykk. Notaðu hugarflugið við val og gerð óáfengra drykkja. Finndu eftirlætisdrykkinn þinn.
Gott að hafa í huga:
- Berðu alltaf fram vatn, gjarnan með ísmolum, hvaða drykk sem þú annars veitir með matnum. Ekki gera ráð fyrir að gestirnir (eða þú sjálf(ur)) slökkvi þorstann í þeim drykkjum, heldur vatninu. Hafðu sérstakt glas undir vatnið. Örlítill sítrónusafi eða sneið gefur vatninu ferskt bragð.
- Byrjaðu máltíðina með fremur súrum (þurrum) drykk sem örvar meltingarfærin. Sætir drykkir koma síðar.
- Óáfeng vín geta með góðum árangri komið í stað áfengra við matargerð.
- Sumum finnst óþægilegt að biðja um óáfengt ef flestir umhverfis þá drekka áfengi. Gerðu þeim lífið auðveldara; gakktu um við og við og bjóddu eingöngu óáfenga drykki. Það gefur til kynna að þú lítir á það sem sjálfsagðan hlut að velja óáfengt.