Áfengi & krabbamein

Áfengi er áhættuþáttur krabbameina. Því meira sem drukkið er, þeim mun meiri er áhættan. Hægt er að fækka eða koma í veg fyrir krabbamein og dauðsföll af völdum áfengis með því að draga úr eða hætta áfengisneyslu.

Í fjölda rannsókna hefur verið sýnt fram á tengsl milli áfengisneyslu og nokkurra tegunda krabbameina. Því hefur áfengisneysla verið flokkuð sem þekktur krabbameinsvaldur hjá Alþjóðakrabbameinsrannsóknarstofnuninni (IARC). Um flest krabbamein gildir að því meira sem drukkið er og því lengri tíma sem drykkjan nær yfir því meiri líkur eru á að fá áfengistengt krabbamein. Talið er að um 3,5% dauðsfalla vegna krabbameins megi rekja til áfengisneyslu, samkvæmt tölum frá Bandaríkjunum. Og rannsóknir hafa leitt í ljós að um 12% krabbameina á heimsvísu tengjast áfengisdrykkju.

Orsakasamhengi er á milli áfengisneyslu og ýmissa krabbameina, þar á meðal nokkurra algengustu meinanna, svo sem brjóstakrabbameins hjá konum og krabbameins í ristli og endaþarmi. Eitt af hverjum tíu tilfellum ristilkrabbameins tengist áfengisdrykkju. Fyrir krabbamein í höfði og hálsi eykst áhættan verulega ef reykt er samhliða.

Í rannsókn sem gerð var af norrænum krabbameinsskrám árið 2018 var áætlað að miðað við óbreyttar drykkjuvenjur megi búast við samtals 83.000 áfengistengdum tilfellum af völdum krabbameins næstu 30 árin í Danmörku, Finnlandi, Íslandi, Noregi og Svíþjóð og munu flest þeirra greinast í ristli, endaþarmi og brjóstum. Óraunhæft er að reikna með að hægt sé að fyrirbyggja öll þessi tilfelli, það er að öll áfengisneysla hverfi á næstunni, en með helmings fækkun í hópi þeirra sem drekka eitt til fjögur glös á dag mætti koma í veg fyrir 21.500 tilfelli.

Örugg mörk áfengisnotkunar eru ekki þekkt og sýnt hefur verið fram á að jafnvel hófleg notkun eykur áhættu fyrir krabbameini og eykst áhættan eftir því sem notkunin er meiri.

Stutta svarið við þessari spurningu er einfaldlega „já, áfengi hefur þekkt krabbameinsvaldandi áhrif hjá mönnum.“

Áfengi inniheldur etanól sem veldur tímabundinni vímu og er þar af leiðandi vinsælt til neyslu meðal þeirra sem sækjast eftir vímuáhrifum. Eftir að hafa drukkið áfengi fær etanól greiða leið inn í líkamann um magaslímhúð og nærhluta smágirnis þaðan sem það breiðist hratt um líkamann með blóðrásinni. Endastöð etanóls er í lifrinni þar sem ensímið ADH (e. alcohol dehydrogenase) umbreytir meirihluta þess í asetaldehýð en það er einstaklingsbundið hversu hratt það gerist. Asetaldehýð er síðan brotið niður af ensíminu ALDH (e. aldehyde dehydrogenase) í asetat sem líkaminn getur nýtt sér til orku. Að síðustu er asetat brotið í niður í vatn og kolefnis-tvíildi (einni nefnt kolefnis-díoxíð) sem líkaminn losar sig við með öndun um lungun.

Mynd af lungnakrabbameinsfrumu að skipta sér.

Það er afar einstaklingsbundið hversu hratt etanól og asetaldehýð brotnar niður og ef drukkið er mikið áfengi á stuttum tíma getur getur myndast flöskuháls fyrir asetaldehýð því ensímið sem brýtur það niður hefur takmarkaða virkni. Asetaldehýð safnast þannig tímabundið upp í líkamanum og auk þess er þekkt er að asetaldehýð safnast hraðar upp hjá sumum. Til dæmis er algengt að fólk af asískum uppruna þoli verr áfengi og geti verið í aukinni áhættu að fá vissar tegundir krabbameina.

Aðrir þættir eins og líkamsþyngd og stærð lifrar hafa einnig áhrif á hversu hratt við getum losað okkur við etanól. Ef einkenni eins og roði í andliti, ógleði og hraður hjartsláttur koma fram eftir áfengisneyslu er það merki um að asetaldehýð hafi safnast upp í líkamanum en það er leið líkamans til að gefa merki um að halda sig frá áfengi. Því er ekki óalgengt að fólk sem þolir illa áfengi drekki minna af því.

Þó fer þeim fjölgandi sem kjósa sér þann lífsstíl að drekka ekki áfengi, án þess að hafa óþol fyrir áfengi. Asetaldehýð er það efni í áfengi sem hefur mestu eituráhrifin á líkamann og getur valdið krabbameini. Sýnt hefur verið fram á að asetaldehýð getur valdið krabbameini á nokkra vegu. Það getur meðal annars truflað afritun erfðaefnis (DNA) og hindrað getu líkamans til að gera við skemmt erfðaefni. Þetta getur haft þær afleiðingar að heilbrigðar frumur stökkbreytast í krabbameinsfrumur.

Við niðurbrot etanóls geta einnig myndast hvarfgjarnar súrefnistegundir (e. reactive oxygen species) sem geta skemmt prótín og erfðaefni eða hvarfast við önnur efni og myndað krabbameinsvaldandi sameindir. Auk þess getur asetaldehýð skemmt prótín í frumum og framkallað frumudauða en sótthreinsi- og leysiefnaáhrif etanóls byggja einmitt á þeirri virkni. Áfengi getur einnig minnkað getu líkamans til að taka upp A-vítamín, fólínsýru og fleiri vítamín.

Það er afar einstaklingsbundið hversu hratt áfengi brotnar niður í líkamanum.

Venjulega er talað um að áfengi hafi eitrunaráhrif á flest líffærakerfi í styrkleika meira en sem nemur 1-2 drykkjum á dag, þó nýlegar vísbendingar sýni að það séu engin örugg mörk. Hingað til hefur áfengi verið tengt aukinni áhættu að fá krabbamein í höfuð, háls, vélinda, maga, lifur, brjóst, eggjastokka, ristil og endaþarm. Fjöldi krabbameina sem áfengi hefur verið tengt við hefur fjölgað eftir því sem fleiri rannsóknir um efnið birtast. Venjulega gildir að því meira sem drukkið er og því lengri tíma sem drykkjan nær yfir, þeim mun meiri verða líkurnar á að fá áfengistengd krabbamein. Nú er talið að um 3,5% krabbameinstengdra dauðsfalla megi rekja til áfengisneyslu samkvæmt tölum frá Bandaríkjunum.

Það er að einhverju leyti tengt erfðum og lífsháttum hversu viðkvæmt fólk er fyrir krabbameinsáhrifum áfengis. Til dæmis er fólk sem reykir og drekkur áfengi í margfalt meiri hættu á að fá krabbamein í munnholi, hálsi, barka og vélinda en fólk sem notar einungis áfengi eða sígarettur. Áhættan verður þannig meiri en ef við myndum leggja saman áhættu reykinga og áfengisneyslu. Þeir sem segjast ekki vera reykingamenn en „reykja bara þegar þeir drekka“ ættu að gefa þessari tölfræði sérstakan gaum. En eins og oft vill verða í vísindum er sambandið ekki algerlega einhliða.

Andstætt fyrrsögðu hefur áfengi reynst verndandi fyrir tvö krabbamein, non-Hodgkins eitilfrumukrabbamein og nýrnakrabbamein. Sem dæmi hefur fólk sem drekkur áfengi reynst í 15% minni hættu að fá non-Hodgkins eitilfrumukrabbamein en þeir sem neyta ekki áfengis og nýlegar vísbendingar benda til þess að áhrifin tengist bjór en ekki öðrum áfengistegundum. Þó áhrifin séu vissulega væg þá er það vísindamönnum enn hulin ráðgáta hvað liggur að baki þessa sambands og hvort það sé byggt á rannsóknarskekkju. Engu að síður eru bæði etanól og asetaldehýð í áfengi skráð sem þekkt krabbameinsvaldandi efni hjá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni (WHO). Ekkert efni fær þessa skilgreiningu nema óyggjandi vísbendingar og fjöldi rannsókna liggi að baki. Því segi ég að lokum það sem afi minn sagði við mig; „Gakktu hægt um gleðinnar dyr og gæfan veri með þér.“

-Tekið af vísindavefnum.