Áfengi &
meðganga

Áfengi hefur skaðleg áhrif á þroska fóstursins á margþættan hátt og getur haft áhrif á barnið ævilangt. Einkennin verða umfangsmeiri eftir því sem áfengisneyslan var meiri. Ekki er hægt að spá fyrir um hvort eða hvaða áhrif áfengisneysla muni nákvæmlega hafa á fóstrið. Þar spila fleiri þættir inn í til dæmis tímasetning neyslunnar og næringarástand móður. Ef konur eru að reyna að eignast börn er mælt með því að þær neyti alls ekki áfengis. Það er hægt að fyrirbyggja áfengisheilkenni fósturs 100% með því að neyta ekki áfengis.

Áfengið truflar taugafrumuþroska, eðlilega tilfærslu taugafruma við myndun taugakerfisins og getur valdið frumudauða. Einnig getur áfengi valdið súrefnisskorti í fóstrinu því það minnkar blóðflæði um naflastreng sem hefur meðal annars áhrif á vöxt. Áhrif geta verið á hormóna og prótínframleiðslu. Afleiðingar áfengisneyslu á meðgöngu geta komið fram til dæmis í frávikum á vitsmunaþroska, hreyfifærni og hegðunarþáttum. Einkennin geta breyst með tímanum, til dæmis getur dregið úr útlitseinkennum á unglingsaldri og minna borið á hæðarmun.

Áfengi hefur áhrif á nær allan heilann og þar sem heili og taugakerfi eru að þroskast alla meðgönguna getur áfengisneysla hvenær sem er á meðgöngunni valdið skaða. Áfengi fer auðveldlega inn í blóðrás móðurinnar, yfir í fylgjuna og fóstrið. Áfengismagn í blóði móður, fóstri og legvatni verður svipað innan nokkurra mínútna frá því áfengisins var neytt. Hins vegar hefur fóstrið litla hæfni til að brjóta vínandann niður vegna nánast engrar virkni lifrarinnar og áfengið dreifist um æðar fóstursins til allra vefja þess. Rannsóknir hafa bent til þess að legvatn geti virkað eins og geymir fyrir áfengi þannig að áhrif þess á fóstrið geta orðið lengri en ella auk þess sem þrenging æða í fylgju og naflastreng seinkar flutningi áfengis aftur yfir til móðurinnar þar sem það er brotið niður. Þannig verður styrkur áfengis í fóstrinu hærri en í blóði móður.